Kyndill tók þátt í hálendisgæslu Landsbjargar í 17.-24. júlí og var að þessu sinni með bækistöð á Hveravöllum á Kili. Eins og venja er voru Kyndilsmenn ferðamönnum innan handar og sinntu fyrsta viðbragði þegar þörf var á. Sem betur fer var tíðindalítið á Kili þessa viku fyrir utan eina bílveltu og bíl ferðamanna sem drukknaði í Blöndukvísl. Mikil mildi var að lítil sem engin slys urðu á fólki þó eignatjón hafi verið mikið. Mikill tími gafst því í að spjalla við ferðamenn og leiðbeina þeim á ýmsa lund. Fáfarnir slóðar voru eknir og afskekktir skálar heimsóttir. Færð á vegum var erfið, mikið um þvottabretti og ryk vegna langvarandi þurrka. Slóði yfir Stórasand er aðeins fær mikið breyttum bílum og jökulár á borð við Blöndukvísl algerlega ófær jafnvel öflugustu bílum. Það var sólskin og þurrt framanaf vikunni en í vikulok kólnaði og langþráð úrkoma lét sjá sig en þá í formi snjókomu. |